Grímsvötn – Grímsey
Það var árið 1040 sem kú í eigu Sigurðar á Skriðu sem síðar fékk nafnið Skriðuklaustur týndist .Kú þessi fannst svo sex árum seinna, þá í landi nágranna hans Indriða á Eiðum. Kýrin var þá ásamt sex nautum í landi Eiða.
Indriði gerði nú kröfu um að fá hluta nautanna, en Sigurður sagði honum að éta skít og hypja sig heim. Indriði varð ókvæða við og drap Sigurð.
Indriði borgaði svo fyrir hann bætur og málið var dautt.
Sigurður átti son sem hét Grímur. Árin liðu og Grímur óx úr rasi rétt eins og gerist og gengur. Einhverju sinni var fóstra hans var að jagast í honum út af því að hann pissaði útfyrir á kamrinum. Grímur bara brúkaði munn og sagði að henni kæmi bara ekkert við hvernig hann migi og hvar. Kerlingin brást ókvæða við og sagði að ekki væri manndómurinn mikill, þar sem Grímur hefði ekki hefnt fyrir drápið á föður sínum. Fóstri Gríms hvatti hann til hefnda og gaf honum nafnið Vestfjarða-Grímur.
Indriði á Eiðum fékk njósn af því að Grímur væri í hefndarhug og á leið að Eiðum til að hefna föður síns. Til að villa um fyrir Grími sefur Indriði upp við vegg fyrir ofan konu sína og hefur kvenmanns hárkollu á hausnum.
Grímur hefur njósn af þessu og nótt eina kemur Grímur og drepur Indriða. Grímur kemst undan á flótta og fer norður í land, þar sem hann leynist hjá ekkju mokkurri. Ekkja þessi er fjölkunnug og sumir töldu hana göldrótta, ráðleggur hún Grimi að leita í landsuður til vatna sem þar væru og síðan til Ingólfshöfða og ná þar skipi til útlanda. Enda vissi hún að Helgi bróðir Indriða leitaði eftir hefndum fyrir Indriða.
Grímur fer að hennar ráðum. Fór svo að hann byggði sér laufskála úr skógi sem þar var nógur við vötnin. Veiddi hann fisk úr vötnunum sér til matar.
Nú skeður það að fiskur sem Grímur veiðir yfir daginn hverfur á nóttunni. Þetta líkar Grími ekki og tekur til þess ráðs að vaka nótt eina. Sér hann þá að risi nokkur sem hét Hallmundur tekur fiskinn og fer með hann. Grímur fylgir honum eftir og kastar spjóti sínu í bak risans. Risinn Hallmundur heldur för sinni áfram með spjótið í bakinu allt þar til hann kemur í helli þann sem hann bjó í ásamt dóttur sinni. Þar er fyrir dóttir hans og tekur hann loforð af henni að hún grafi sig þar í hellinum eftir sinn dag. Síðan hnígur hann niður og er dauður. Þetta allt sá og heyrði Grímur þar sem hann hafði fylgt á eftir Hallmundi risa.
Dóttir risans grefur nú föður sinn Hallmund, en hafði ekki afl til að taka nógu stóra gröf.
Um nóttina á eftir gengur risinn Hallmundur aftur og ræðst gegn Grími, en Grímur hefur betur. Um morguninn fer Grímur í hellinn og grefur risann upp og brennir leifar hans. Dóttir risans gerir engar athugasemdir við þessa gjörð Gríms, en mælti svo að vötn þessi skyldu á ýmsum tímum loga og brenna og eyða öllum gróðri umkringis sig.
Nú taka þau Grímur og dóttir risans öll verðmæti sem voru í hellinum og halda til Ingólfshöfða, þar sem Grímur fór á skip úr landi. Að skilnaði gaf dóttir risans Grími að gjöf belti sem var með þeim undrum að sá sem girti sig því, gat ekki elskað aðra konu en sig.
Grímur hélt nú til Noregs, til vistar hjá Haraldi konungi Sigurðssyni. Þegar líða tók að jólum klæddist Grímur beltinu. Þá þegar fór honum að líða illa. Spurði konungur hverju þetta sætti, og sagði Grímur honum sögu sína. Haraldur gaf Grími skip og bað hann sækja konuna til Íslands. Grímur tekur land við Ingólfshöfða og fer þegar í stað til Grímsvatna. Þar hittir hann dóttur risans ásamt sveinbarni sem var ávöxtur samveru þeirra við Grímsvötn.
Halda þau nú til Noregs þar sem þau taka kristna trú og skírn öll þrjú.
Eftir nokkurra vetra dvöl í Noregi langaði Grím að fara aftur til Íslands. Þau sigldu norður til Íslands og tóku land á eyju fyrir norðan landið. Þar voru fyrir risar eða bjargbúar sem Grímur ýmist rak burtu eða drap, og hreinsaði þannig eyjuna. Þá byggði hann sér bú þar. Er ætt Gríms að finna í eyjunni sem nú heitir Grímsey.
Ýmsir fræðimenn halda að þetta sé einhver þjóðsaga og nafnið „Grim“ sé úr fornensku og merki draugur. Sumir benda á að Grímur sé eitt af nöfnum Óðins.
Enn aðrir að þetta sé úr norsku þar sem Grim þýði vættir og því Grímsvötn þýði í raun vættavötn.
Ein kenningin er að grím þýði dökkur. Dökkir bólstrar stíga upp af vötnunum. Svartir klettaveggir í Grímsfjalli og svo framvegis.
Það er bara ekki eins skemmtilegt og sagan á Vestfjarðar-Grími, ónei,ónei, ég meina það bara.