Ari-jón-banki
Ari-Jónbanki – Arionbanki
Þeir sátu við borðið skilanefndarmenn Kaupþingsbanka, settur bankaljóri og fyrrverandi bankaljóri. Tilefni fundarins var að finna bankanum nýtt nafn. Ýmsar tillögur komu fram, en þær þóttu minna of mikið á Kaupþing. Þá stakk einhver upp á að skíra bankann í höfuðið á valinkunnum mönnum út atvinnulífinu.
Hvernig væri til dæmis Ari-Jón banki. Ari eftir Ara Edvald og Jón eftir Jóni Ásgeiri. Bráðsnjallt sögðu skilanefndarmennirnir einum rómi.
Þarna var stúlka sem skrifaði fundargerð á gömlu ferðatölvuna sem Sigurður fékk þegar hann vann hjá IBM við að selja tölvur. Hann hafði gleymt að skila tölvunni þegar hann hætti hjá þeim. En þessi tölva var komin til ára sinna og sumir stafirnir áttu það til að klikka.
Þannig varð það að þegar stúlkan skrifaði Ari-Jón klikkuðu bandstrikið, komman yfir ó-ið og joðið. Þannig varð þetta Arion í staðin fyrir Ari-Jón.
Nú hreinskrifar hún fundargerðina með þessari villu. Hún hafði ekkert tekið eftir því að bandstrikið og joðið hafði ekki komið fram, því hún var útlensk og kunni íslenskuna ekki alveg nógu vel.
Nú er þessi fundargerð afhent bankastjóranum sem heitir víst Sveinbjörn eða er Sveinbjörnsson man ekki hvort. Hann les yfir fundargerðina og segir, mikið er þetta snjallt hjá okkur með nýja nafnið. Hann tók ekki eftir því að nafnið var ekki Ari-Jónbanki því hann var lesblindur. Hann gefur fyrirmæli um að prenta bréfsefni og skilti til að hengja á öll útibú bankans. Þetta er framkvæmt og allir eru kátir ARIONBANKI.
Arion er sko flott nafn á rústir Kaupþingsbanka sem einu sinni var Búnaðarbankinn áður hann sameinaðist Kaupþinginu hans svarta Péturs Blöndal.
En það er að segja um Arion að hann var sonur Poseidons sjávarguðs Grikkja, sem Rómverjar kölluðu Neptuno, og Demete sem var ein af 28 konum sem Poseidon barnaði.
Það fara svo sem engar sögur af þeim sem hann ekki barnaði. En alls er talið að hann hafi átt 56 börn með þessum 28 konum, en ekki voru þau öll mennsk að sögn fræðimanna.
Djöfull öfunda ég hann svona eftirá. Hvernig skyldi honum hafa gengið að borga meðlögin með öllum þessum barnaskara ?
En það er af Demete að segja að þegar hún varð vör við áhuga Poseidons á sér sem kynveru, þá lagði hún höfuðið í bleyti því henni leist ekki alltof vel á þennan graðnagla sem Poseidon var.Hún hafði frétt það út í búð að hann hefði þá þegar barnað 11 konur og átt með þeim eina 25 króa. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti sagði stelpan í búðinni.
Nú eru góð ráð dýr hugsaði Demete, svo datt henni það snjallræði í hug að breyta sér í hryssu og leynast í hestastóði nálægt þorpinu
Poseidon leitaði nú að Demete en fann ekki. Hann var í þungum þönkum þar sem hann sat á þúfu dag einn og horfði yfir þorpið.Þá rennur stóðið hjá og Poseidon horfir á.
Mikið er hryssan þarna falleg hugsar hann í því sem Demete í líki hryssunnar rennur hjá með stóðinu. Það skiptir engum togum að Poseidon breytir sér í graðfola og hleypur uppi þessa fríðu hryssu, og uppá hana fer, og úr verður Arion.
Sagt er um Arion þennan sem bankinn er kenndur við, að honum hafi verið rænt af Sómölskum sjóræningjum, þegar hann var á leið frá Sikiley til Grikklands, eftir að hafa tekið við tónlistaverðunum þar.
Arion var mikill tónlistamaður og vann til ótal verðlauna bæði fyrir söng og gítarspil. Verðlaunin sem hann fékk á Sikiley voru raunar fyrstu verðlaun í Eurovision. Þessi Eruovision keppni er sögð sú fyrsta sinnar tegundar.
Síðar var þráðurinn tekin upp og þekkjum við vel til þessarar söngvakeppni.
Sómölsku sjóræningjunum datt nú í hug að krefjast lausnargjalds fyrir Arion. Þeir höfðu þegar tekið af honum verðlaunaféð og aðrar eigur hans. Gera þeir nú kröfu á hendur Gríska ríkinu um lausnargjald upp á 80 kíló af gulli og annað eins í eðalsteinum.
Gríska ríkisstjórnin gerir nú Poseidon grein fyrir kröfu sjóræningjanna. Poseidon segir ég borga ekkert til þessara glæpona frá Sómalíu.
Eftir að þeim var neitað um greiðslu lausnargjalds fyrir Arion fannst sjóræningjunum illt í efni og lögðust í spegúlasjónir um hvað ætti að gera við þennan ránsfeng. Einn sagði bara, eigum við ekki að hafa þetta einfalt og reka spjótið í gengum kauða. Annar taldi það af og frá, það myndi útbía þilfarið og hann nennti sko ekki að skúra það einu sinni enn, betra væri að henda honum fyrir borð og leyfa honum að drukkna drottni sínum. Aumingja sjóræningjarnir vissu ekki almennilega um faðerni Arions.
En Arion var mikill tónlistamaður eins og áður segir, sem hafði unnið til ótal verðlauna, einkum fyrir söng. Meðal verðlauna voru Odiseifs-verðlaunin eftirsóttu einnig var hann verðlaunaður af „fésbók“ þeirra tíma og fastur þáttur með honum var einnig á „Twitter“, svo ekki sé nú minnst á Evruvisjónuna, svo menn geta séð hverskonar snillingur var á ferð.
En ótíndir sjóræningjar vissu náttúrulega ekkert um það. Meðan ræningjarnir þráttuðu um það hvernig ætti að slá Arion af, stakk hann upp á því við þá að fá að syngja, svo sem eitt eða tvö lög fyrir þá.
Þetta sögðu ræningjarnir í lagi sín vegna. Nú tekur Arion upp gítarinn sinn og syngur nokkra vinsæla slagara. Söngur hans hljómar yfir hafflötinn og berst til eyrna höfrunga nokkurra sem eru svamlandi ekki langt frá.
Þegar Arion hefur tæmt söngskrá sína segir hann „adjö“ við ræningjana og stekkur fyrir borð.
Sjóræningjarnir anda nú léttar þar sem Arion sjálfur valdi örlög sín án þess að útbía þilfarið með blóði sínu.
En höfrungarnir sem hlýddu á tónlist Arions hópuðust í kringum hann blakandi uggum og slettandi sporðum af hrifningu.
Einn höfrunganna tók að sér að koma Arion að landi. Áræðanlega hefur Poseidon komið eitthvað þar við sögu.
Af sjóræningjunum fréttist ekkert meira, nema óljósar fregnir um að þeir hafi siglt skipi sínu í strand og farist allir með tölu.
Nú hafa íslenskir tekið uppá því að skíra banka í höfuðið á Arioni, og bankastjórinn tekur ekki í mál að afskrifa eitt eða neitt, segir bara, þið skuluð henda ykkur í skuldalaugina, ég kæri mig ekkert um að þið útbíið parketið mitt, hvað þá heldur marmarann i bankanum mínum með blóðinu úr ykkur, sem er ekki einu sinni bláleitt hvað þá meir.
Skyldi þessi banki eiga eftir að sigla í strand eða lenda í ræningjahöndum?
Flott ekki-múraramerkið á bankanum.
Ps.
Þetta sagði mér daman sem ritaði fundargerðina. Hún er Pólsk, en ég vil ekki láta nafns hennar getið af tillitsemi við drengina hennar. Hún bað mig um að segja ekki frá þessu fyrr en hún væri hætt í bankanum, það er hún nú einmitt núna.