Draumurinn

2015-09-06-R.B.

Draumurinn

Mig dreymdi að ég væri á einstigi. það var hvergi hægt að snúa við svo ég varð að halda áfram.

Einstigið lá upp í móti. Það var fleira fólk á sömu leið. Öðru hvoru voru útskot á þessu einstigi Á þessum útskotum var hægt að staldra við og  virða fyrir sér farinn veg. Mér fannst eins og ég hefði gengið óra vegalengd, og einstigið myndi brátt enda.

Margt fólk var bæði fyrir framan og aftan mig. Flestir á svipuðum gönguhraða og ég. Af og til sá ég fólk hrasa og sumir duttu niður í hyldjúpið.

Ég þekkti engann en kannaðist við nokkra sem ég sá á einstiginu.

Á einum stað fór hópur út af einstiginu, bæði konur og karlar ásamt nokkrum börnum, það hafði víst orðið slys á hraðbrautinni.

Ég stoppaði einstaka sinnum til að virða fyrir mér útsýnið frá einstiginu. Það sem ég sá fannst mér ég hafi séð áður, markt af því mörgum sinnum.

Mér fannst að einstigið hafi verið mjög langt og verið nánast á jafnsléttu að mestu, þó voru einstaka hæðir og lægðir á því. Hvar það endaði vissi ég ekki, en mér fannst eins og það væri ekki mjög langt eftir, og brattinn jókst sífellt.

Veðrið var frekar milt smá sólarglæta öðru hvoru, ilmur af trjágróðri í lofti. Þó fannst mér vera einhver lykt sem ekki átti heima þarna.

Meðal þess sem ég sá frá einum staðnum sem ég stoppaði á, voru hús sem ég kannaðist við frá fyrri tímum. Þarna sá ég ferðalög gleði og sorgir eins og gengur í þessu lífi.

Þar sem ég stóð þarna og virti fyrir mér fortíðina, kemur maður á hendingskasti, hann þýtur framhjá og segir í leiðinni, ætlar þú ekki að drífa þig maður ? Það er að verða uppselt. Ég kannaðist við hann, hann hefur alltaf verið að flýta sér, síðan ég sá hann fyrst.

Ég horfi til baka niður eftir einstiginu og sé mann sem ég hef lengi þekkt koma í rólegheitum í áttina að mér. Ætli sé langt eftir ? spyr hann. Nei segi ég við eigum stutt eftir á toppinn. Við erum í 75,  það eru fáir sem komast í 100  eða meira.

Það er víst ansi kalt á toppnum segir hann þá, ég hefði átt að taka með mér úlpu.

Þá er hnippt í mig og rödd segir, er ekki í lagi með þig ?

Við það hrekk ég upp úr svefninum og draumurinn þar með ekki lengri.