Bosporus

Sundið milli Asíu og Evrópu var nafnlaust í margar aldir. Væringjar sem komu að þessu sundi kölluðu það Sæviðarsund en sumir telja að það hafi verið kallað Njörfasund. Ekki get ég sagt um það með neinni vissu, en heyrt hef ég að einhveratíma fyrir langa löngu,  löngu fyrir okkar daga hafi  Seifur búið í grennd við sundið ásamt Heru eiginkonu sinni, forkunnarfagurri konu.

Eitt sinn er Seifur gekk út á túnið fyrir framan bæinn sinn, kom hann auga á  stúlku, sem ekki var síður falleg en Hera. Stúlka þessi var frá þorpinu hinumegin við lækinn.Þau Seifur og stúlkan taka nú spjall saman.

Um síðir fellur stúlkan fyrir töfrum Seifs, en stúlkur á þeim tíma áttu fullt í fangi með að verjast karlmönnum sem þeim leyst ekki á,  en að verjast ástum Seifs var þessari stúlku um megn, enda fór svo að hún gafst að honum.

Þetta ástand sem var nú komið upp milli þeirra Seifs og stúlkunnar var ekki tilhlýðilegt að mati eiginkvenna þess tíma. En ástin er blind. Þannig gekk þetta um tíma. En Heru var farið að gruna eitthvað. Seifur var sífellt að skjótast út og hagaði sér undarlega.

Eitt sinn þegar Seifur brá sér út,  beið Hera um stund inni í bænum, en fór svo út og í áttina sem hún sá að Seifur fór í. Þegar Seifur varð þess var að Hera nálgaðist, breytti hann stúlkunni í kvígu og þóttist vera að reka hana í haga, þar sem fyrir voru fleiri nautgripir.

Hera kemur þar að en finnst ekki allt vera eins og það ætti að vera. Þegar hún hafði talið gripina finnst henni sem einum grip sé ofaukið.

Stúlkan sem Seifur hafði breytt í kvígu verður nú að bíta gras til að blekkja Heru, en grasið fannst henni alls ekki gott, enda vanari að borða smákökur með súkkulaði. Þegar hún ætlaði að kvarta kom hún ekki upp nokkru orði, það heyrðist bara baul frá henni. Hera gaumgæfir nú gripina og sér að það er kvígunni ofaukið í hjörðinni.

Hera kallar nú til sín jarðgeitung nokkurn og magnar hann upp, og segir honum að stinga kvíguna í afturendann svo svíði undan. Geitungurinn flýgur í áttina að kvígunni, tilbúinn að framfylgja skipun Heru.

Þegar kvígan verður þess áskynja tekur hún á sprett niður í fjöru. Þetta nægði ekki til því geitungurinn elti hana þangað. Hún stekkur þá út í Jóníska hafið og syndir alla leið til Ítalíu. Hún tekur land syðst á Ítalíuskaganum og hleypur upp eftir honum alla leið til staðar sem heitir Fenjaeyjar. Enn  fylgir geitungurinn eftir.

Eftir að hafa fengið sér vatnssopa tekur kvígan enn á sprett og hleypur upp allan Balkanskagann alla leið til sundsins sem fyrr er getið sem skilur milli Asíu og Evrópu. Það skiptir engum togum að hún hendir sér í sundið og fer þar yfir. Er hún þá komin til Asíu og heldur að hún hafi sloppið undan geitunginum. En það var öðru nær, því enn var geitungurinn á eftir henni.

Tók hún þá á rás og hljóp alla leið til Egyptalands. Þegar hún kom þangað hafði Seifur náð samkomulagi við Heru um að hún aflétti eftirför geitungsins.

Hera kallar nú geitunginn til sín gegn loforði Seifs um að hann láti af framhjáhaldi sínu.

Það er ekki að spyrja að því að augu kvígunnar tóku þegar að minnka og nefið að mjókka, klaufarnar breyttust í fingur og tær og sköpulag hennar varð sem fyrr. Hún var nú heldur fríðari en fyrr ef eitthvað er.

Þegar þessar breytingar voru um garð gengnar grét stúlkan af feginleik. Sá grátur er fyrirmynd gráts sem fegurðardrottningar gráta þegar þeim er tilkynnt um úrslit fegurðarsamkeppna.Það fara engar sögur af stúlkunni aðrar en þær að Egypskur fursti töfraði hana og kvæntist henni.

Áttu þau marga afkomendur sem frægir urðu fyrir margar sakir, ég fer ekki nánar út í það hér.En Sundið sem skilur að heimsálfurnar hefur verið kallað Bosporussund frá því kvígan óð það. Á Grísku þýðir Bosporus kúavað.

Í Bosporussundinu eru tveir straumar, annar streymir með botni sundsins í áttina frá Marmarahafi til Svartahafs. Hinn er yfirborðsstraumur sem streymir úr Svartahafi í Marmarahafið.

Á valdatíma Herakleiosar, skeði það eftir eina orrustu milli Grikkja og trúleysingja, sem Herakleios taldi vera í kristnum klúbbi, lét hann hálshöggva þá trúleysingja  sem ekki féllu í orrustunni.

Herakleios fyrirskipaði að líkunum væri kastað í sundið. Það skeði þá að hausarnir féllu til botns og bárust með botnsstraumnum upp í Svartahaf, en kropparnir blésu út og bárust með yfirborðsstraumnum út í Marmarahafið.

Nú er það þannig að það fer sérdeilis illa í drauga þegar höfuð og búkur fylgjast ekki að. Því er óvenju mikill og illur draugagangur í og við Bosporussundið. Þessi draugagangur hefur skotið bæði sjófarendum og ferðamönnum skelk í bringu.

Það er sagt að Asía merki land sólaruppkomu og Evrópa land sólsetursins. Hvort þetta er rétt læt ég ósvarað. Skrifað í október  2010.R.Ben